Enski boltinn

Fékk rautt eftir þrjár sekúndur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP

Enski knattspyrnumaðurinn David Pratt er sagður hafa sett nýtt heimsmet er hann fékk að líta rauða spjaldið eftir aðeins þrjár sekúndur í leik á laugardaginn.

Pratt er leikmaður Chippenham Town sem mætti Bashley um helgina en liðin leika í Southern League Premier Division sem er í sjöunda þrepi deildaskiptingarinnar í Englandi.

Pratt var í byrjunarliði Chippenham og fékk að líta rauða spjaldið fyrir tæklingu eftir aðeins þriggja sekúndna leik.

„Drengurinn fór í tæklinguna með takkana á undan. Dómarinn átti engra annarra kosta völ en að gefa honum rautt. Hann hefði getað fótbrotið hinn manninn," sagði Steve Riley, stjóri Bashley, eftir leikinn.

Það er erfitt að fá þetta heimsmet staðfest þar sem ekki er haldið um þessa tölfræði víða í neðri deildunum. Hins vegar var ávallt talið að Giuseppe Lorenzo, fyrrum leikmaður Bologna, hafi átt gamla heimsmetið er hann fékk rautt eftir tíu sekúndur í leik gegn Parma árið 1990.

Sjálfur sagði Pratt ekki vera stoltur af afrekinu. „Ég er ekki þekktur fyrir að meiða aðra leikmenn viljandi. Ég bara sá boltann og fór í tæklinguna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×