Enski boltinn

Senna líst vel á Man City

NordicPhotos/GettyImages

Spænski landsliðsmaðurinn Marcos Senna hjá Villarreal segist upp með sér yfir því að vera orðaður við Manchester City á Englandi.

Ekki er langt síðan Senna var nálægt því að ganga í raðir Manchester United, en þessi 32 ára gamli leikmaður virðist enn horfa til Englands.

"Ég hef heyrt af stórum áætlunum City og ég er upp með mér yfir því að þeir skuli sýna mér áhuga," sagði Senna í samtali við Daily Mail.

"Úrvalsdeildin er stór deild og ég hef áhuga á þeirri áskorun sem fylgir því að spila þar. Það er flókið ferli að fara frá Villarreal af því tímabilið er spennandi og við erum í Meistaradeildinni. Það tæki stórt tilboð til að losa mig frá félaginu en það er ekki útilokað," sagði Senna, sem fæddur er í Brasilíu.

Forráðamenn Villarreal hafa gefið út að þeir væru til í að skoða það ef stórt tiboð bærist í hinn 32 ára gamla varnartengilið og þá er líklega bara að bíða og sjá hvort eigendur City eru til í að borga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×