Innlent

Þurfa aukið samráð við ríkið til að standa undir rekstri

Vandséð er hvernig sveitarfélögin geta sett fram fjárhagsáætlanir sem byggja á hallalausum rekstri eins og lög gera ráð fyrir. Þrátt fyrir að ítrasta aðhalds verði gætt í öllum rekstri og ýmsir rekstrarliðir og útgjöld skorin niður, liggur fyrir að það dugar ekki til, eigi að standa við þau meginmarkið að halda úti óskertri grunn- og velferðarþjónustu sveitarfélaganna. Því skiptir höfuðmáli að sveitarfélögin og ríkið séu samstiga í jafnt aðgerðum og áherslum við að tryggja rekstrargrundvöll sveitarfélaganna og treysta um leið þær grunnstoðir sem sveitarfélögin standa fyrir í þjónustu við sína íbúa. Þetta segir í ályktun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem samþykkt var á aðalfundi um helgina.

Þar segir að samhliða krefjandi vinnu við að móta og laga daglegan rekstur sveitarfélaganna að nýjum veruleika, þurfi þau að búa sig undir að mæta ört vaxandi atvinnuleysi, þar sem kallað verði eftir aðgerðum af þeirra hálfu. Sveitarfélögin muni beita öllum þeim úrræðum sem þeim séu fær til að leggja sitt af mörkum, en ljóst sé að meira mun þurfa til.

Samtök sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu segja að við þessar aðstæður sé nauðsynlegt að sveitarfélögin og ríkisvaldið eigi með sér öflugt og náið samstarf um aðgerðir og viðbrögð sem dregið geta úr þeim vanda sem fyrirsjáanlegur sé að óbreyttu. Aðalfundurinn kallar því eftir því að nú þegar verði komið á fót samráðshópi ríkis og aðildarsveitarfélaga Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að móta sameiginlegar aðgerðir ríkis og sveitarfélaganna sem tryggt geti hallalausan rekstur sveitarfélaganna og spornað gegn atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári.

Í því sambandi þurfi að horfa til eðlilegrar kostnaðarskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra viðbótarútgjalda sem blasi við sveitarfélögunum vegna velferðarmála, öldrunarmála og fræðslumála, aðgengis sveitarfélaganna að nauðsynlegu fjármagni til að mæta tekjusamdrætti, og framlögum ríkisvaldsins til að viðhalda umfangi mannaflsfrekra framkvæmda s.s. vegna nauðsynlegra samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×