Enski boltinn

Chelsea lagði United í fjörugum leik

Leikmenn Chelsea heiðruðu minningu móður Frank Lampard sem lést á dögunum
Leikmenn Chelsea heiðruðu minningu móður Frank Lampard sem lést á dögunum NordcPhotos/GettyImages

Chelsea vann í dag gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur á Manchester United í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni og þar með eru liðin orðin jöfn með 81 stig á toppnum. Michael Ballack var hetja þeirra bláklæddu í dag og skoraði bæði mörk heimamanna.

Sigur Chelsea var verðskuldaður í dag en liðið var sterkari aðilinn lengst af í leiknum. Joe Cole fékk besta færi liðsins í fyrri hálfleik þegar skot hans hrökk í þverslá United-marksins. Það var svo Michael Ballack sem kom Chelsea yfir með fallegu skallamarki eftir fyrirgjöf Didier Drogba á lokamínútum fyrri hálfleiks.

Sir Alex Ferguson hvíldi nokkra af lykilmönnum sínum í leiknum í dag og það kom niður á leik liðsins - í það minnsta í fyrri hálfleik, sem var eign heimamanna. Ekki bætti úr skák að varnarjaxlinn Nemanja Vidic fékk spark í höfuðið og þurfti að fara af velli meiddur.

Wayne Rooney var greinilega meiddur í leiknum en það kom ekki í veg fyrir að hann jafnaði leikinn fyrir gestina eftir glórulaus mistök þeirra Ferreira og Carvalho í vörn Chelsea.

Heimamenn létu þetta ekki á sig fá og þegar rúmar 10 mínútur voru til leiksloka fékk Chelsea vítaspyrnu þegar fyrirgjöf hrökk í höndina á Michael Carrick. Michael Ballack skoraði af öryggi úr vítinu og tryggði Chelsea dýrmætan sigur. United menn fengu reyndar tvö góð færi þegar þeir sóttu án afláts á lokamínútunum og þurfti Chelsea í tvígang að bjarga á marklínu.

Liðin eru nú jöfn í toppsæti deildarinnar með 81 stig eins og fyrr sagði, en United er með betra markahlutfall og nægir því að vinna síðustu tvo deildarleiki sína til að landa titlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×