Enski boltinn

Aston Villa slátraði Birmingham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Carew fagnaði öðru marka sinna með einum boltastrákanna á Villa Park.
John Carew fagnaði öðru marka sinna með einum boltastrákanna á Villa Park. Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa vann 5-1 sigur á Birmingham í grannaslag liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. Útlitið er ekki bjart hjá þeim síðarnefndu en liðið er nú komið í fallsæti eftir leiki helgarinnar.

Ashley Young og John Carew skoruðu tvö mörk hver og Gabriel Agbonlahor eitt. Mikael Forssell skoraði mark Birmingham.

Aston Villa stillti upp sama liði og rústaði Derby, 6-0, um síðustu helgi en Mauro Zarate var í byrjunarliði Birmingham á kostnað Mikael Forssell. Þá var Sebastian Larsson meiddur og Cameron Jerome tók hans stöðu í liðinu.

Maður leiksins var Ashley Young og skoraði hann fyrsta mark leiksins. Hann fékk boltann frá Olof Mellberg og þrumaði knettinum í netið af átján metra færi.

Fabio Capello landsliðsþjálfari var í stúkunni og ljóst eftir þessa frammistöðu að Young á víst sæti í næsta landsliðshópi.

Young tók skömmu síðar glæsilega aukaspyrnu sem rataði beint á kollinn á John Carew sem skilaði knettinum í netið.

Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar að Carew bætti við öðru marki eftir sendingu Gareth Barry.

Young skoraði síðan fjórða markið eftir glæsilegan sprett þar sem hann gerði grín að varnarmönnum Birmingham. Hann skaut að marki en skotið var varið. Hann hirti hins vegar frákastið og skilaði boltanum í netið.

Mikael Forssell náði að klóra í bakkann eftir að hann kom inn á sem varamaður en það dugði skammt.

Gabriel Agbonlahor innsiglaði sigurinn með fimmta marki Aston Villa með skoti af löngu færi.

Aston Villa er nú komið upp í sjötta sæti deildarinnar og er aðeins þremur stigum á eftir Everton.

Birmingham er sem fyrr segir í fallsæti en liðið er í átjánda sæti með 31 stig, einu á eftir Íslendingaliðunum Bolton og Reading sem eru hólpin miðað við þessa stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×