Fótbolti

Þrír leikmenn draga sig úr landsliðshópi Wales

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brian Stock, til vinstri, fagnar marki í leik með Doncaster í vetur.
Brian Stock, til vinstri, fagnar marki í leik með Doncaster í vetur. Nordic Photos / Getty Images

Þrír leikmenn úr landsliðshópi Wales hafa dregið sig úr hópnum fyrir leikinn gegn Íslandi á Laugardalsvelli annað kvöld.

Brian Stock, leikmaður Doncaster, meiddist á baki í leiknum gegn Leeds um helgina er Doncaster vann sér sæti í ensku B-deildinni.

Þá hafa þeir David Cotterill, leikmaður Wigan, og Craig Davies, leikmaður Oldham, dregið sig úr hópnum af persónulegum ástæðum.

Wales mætir einnig Hollandi í vináttulandsleik í vikunni en þeir verða einnig án þeirra Simon Davies, Jermaine Easter, David Vaughan og Paul Perry í báðum leikjum.

Simon Davies er leikmaður Fulham og hefur verið fyrirliði landsliðsins í fjarveru Criag Bellamy sem hefur verið meiddur á ökkla. Bellamy er þó í landsliðshópi Wales en er tæpur fyrir leikinn á morgun.

Þeir Boaz Myhill og Sam Ricketts, leikmenn Hull, verða ekki með gegn Íslendingum á morgun þar sem þeir léku með liði sínu um helgina. Þeir verða þó með Wales gegn Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×