Enski boltinn

Ferguson: Sigur kemur okkur í frábæra stöðu

NordcPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segir að sigur sinna manna í Manchester United gegn Blackburn á morgun kæmi liðinu í mjög góða stöðu í baráttunni um meistaratitilinn.

United spilar þá leik sem það á til góða á Chelsea og getur náð fimm stiga forystu með sigri. Það er þó ljóst að sigurinn verður ekki gefinn gegn fyrrum United-manninum Mark Hughes og lærisveinum hans í Blackburn á Ewood Park.

"Ef við vinnum á laugardaginn setur það okkur í frábæra stöðu á lokasprettinum. Við viljum að sjálfssögðu vinna leikinn og komast aftur í fimm stiga forystu. Við fengum óvæntan bónus á mánudaginn (þegar Chelsea tapaði stigum) og við getum ekki beðið um meira en það. Nú er þetta í okkar höndum og vonandi náum við að klára leikinn gegn Blackburn," sagði Ferguson á heimasíðu félagsins.

"Við munum fá frábæran stuðning á Ewood, andrúmsloftið verður skemmtilegt og við gætum ekki farið þengað á betri tíma. Ég á von á toppleik frá mínum mönnum og þeir verða að hafa trú á sjálfum sér og félögum sínum. Við eigum að hafa mannskap í að klára þetta og gengi liðsins hefur verið ágætt," sagði Ferguson.

United hefur fengið þær frábæru fréttir að varnarjaxlinn Nemanja Vidic verði orðinn klár í slaginn á morgun, Nani er smátt og smátt að ná sér og svo á liðið von á því að endurheimta Darren Fletcher úr meiðslum í næstu viku - þegar hann er væntanlegur til æfinga á ný.

"Þetta eru frábær tíðindi fyrir okkur. Það er gott að fá Vidic til baka í plús við þá Mikael Silvestre og Gary Neville, svo við höfum úr nokkrum mönnum að velja," sagði stjórinn.

Þeir Anderson og Owen Hargreaves eru reyndar nokkuð tæpir fyrir leikinn á morgun vegna meiðsla og ljóst er að framherjinn Louis Saha verður ekki með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×