Íslenski boltinn

Þorvaldur: Hart barist á Skaganum

Elvar Geir Magnússon skrifar

Þriðju umferð Landsbankadeildar karla lýkur í kvöld með tveimur leikjum. ÍA og Fram mætast klukkan 19:15 á Skaganum og KR mætir Breiðabliki í leik sem verður í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 20.

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, býst við harðri baráttu á Akranesi í kvöld. „Það þýðir ekkert annað en að vera vel gíraðir þegar menn eru á leið á Skagann," sagði Þorvaldur í samtali við Vísi.

Þorvaldur var tvö ár undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar, þjálfara ÍA, sem leikmaður. Það var árin 1988 og 1989 þegar þeir voru hjá KA. Þorvaldur segir minningarnar frá þeim tíma mjög góðar. „Við erum ágætis félagar og alltaf gaman að hitta Gauja. Það verður því gaman í kvöld."

Þetta verður í fyrsta sinn sem Þorvaldur mætir Guðjóni sem þjálfari í deildarkeppni. Jón Þorgrímur Stefánsson og Henrik Eggerts eru enn á meiðslalista Fram og verða fjarri góðu gamni í kvöld.  „Það er enn eitthvað í Jón Þorgrím og hann verður því ekki með í kvöld. Þá er Henrik Eggerts enn á meiðslalistanum. Annars er ekkert nýtt, allir aðrir eru klárir í slaginn," sagði Þorvaldur.

Framarar hafa unnið báða leiki sína til þessa og ekki fengið á sig mark. „Það er alltaf gott að halda hreinu. Það er byrjunin á því að ná góðum úrslitum að halda markinu hreinu. Maður á von á hörkuleik í kvöld, það verður hart barist. Við þurfum að hafa mikið fyrir því að ná að halda hreinu í kvöld," sagði Þorvaldur.

Skagamenn gerðu jafntefli gegn Breiðabliki í fyrstu umferð en töpuðu svo fyrir FH. Það má því búast við þeim vel hungruðum í leiknum í kvöld. „Það er ekkert nýtt á þeim bænum," sagði Þorvaldur.

„Það eru það margir leikir eftir að þetta á eftir rokka upp og niður. Menn eru ekkert að spá of langt fram í tímann. Það eiga eftir að koma upp vandamál og vonandi einhver gleði líka. Við reynum bara að leysa hvert verkefni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×