Enski boltinn

Standa á öndinni vegna stuðningsmanna City

Eriksson vonar að stuðningsmenn City sýni virðingu á sunnudaginn
Eriksson vonar að stuðningsmenn City sýni virðingu á sunnudaginn Nordic Photos / Getty Images

Forráðamenn Manchester City óttast að stuðningsmenn félagsins muni verða til vandræða þegar liðið sækir granna sína í United heim í úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Fyrir leikinn á að gera mínútuþögn vegna fórnarlamba Munchen-harmleiksins fyrir 50 árum, en óttast er það það fari á sama veg og á landsleik Englendinga og Sviss í vikunni þar sem dómarinn flautaði þögnina af eftir tæpa hálfa mínútu vegna ósiðlegra hrópa nokkurra stuðningsmanna í stúkunni.

Verði það sama uppi á teningnum á Old Trafford á sunnudaginn er óttast að til óláta komi meðal stuðningsmanna, enda eru litlir kærleikar milli City og United.

Sven-Göran Eriksson, stjóri City, hefur komið þeim tilmælum til stuðningsmanna City að sýna virðingu þegar beðið verður um mínútuþögn á sunnudaginn.

"Ég vona að allir sýni þessu virðingu því þetta var mikill harmleikur. Það er eitt að hafa ríg milli liða, það er bara partur af leiknum, en þegar við erum að tala um svona harmleik er málið allt annað. Ég trúi á það að sýna virðingu og Manchester City er félag sem er byggt á virðingu. Ég var vonsvikinn þegar náðist ekki að halda mínútuþögn á Wembley í vikunni og ég vona að menn muni sýna virðingu á sunnudaginn. Allt annað yrðu gríðarleg vonbrigði," sagði Eriksson í samtali við Times.

Stuðningsmannaklúbbur Manchester City fór þess á leit við kollega sína hjá United fyrr í þessum mánuði að fórnarlömbum Munchen-harmleiksins yrði frekar minnst með mínútulöngu lófaklappi í stað þagnar, en því var hafnað því United mönnum þótti ekki við hæfi að klappa til að minnast harmleiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×