Enski boltinn

Ráðast úrslitin á morgun?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ferguson og Grant.
Ferguson og Grant.

Ef Sir Alex Ferguson og lærisveinar hans í Manchester United vinna Chelsea á Stamford Bridge á morgun eru þeir nánast öruggir með enska meistaratitilinn þetta árið.

Ef United vinnur verður liðið með sex stiga forystu í deildinni þegar tvær umferðir eru eftir. Þar sem markatala þeirra er mun betri en hjá Chelsea myndi sigur á morgun tryggja liðinu meistaratitilinn.

„Við viljum ekki leyfa þeim að innsigla titilinn á okkar heimavelli, reyndar viljum við ekki að þeir verði meistarar yfir höfuð," sagði Avram Grant, knattspyrnustjóri Chelsea.

Ferguson hefur áhyggjur af því að leikmenn sínir verði ekki í sínu besta standi eftir leikinn í Barcelona á miðvikudagskvöld. „Við lékum sólahring á eftir Chelsea í vikunni og þurftum þar að auki að ferðast mun meira. Menn þurfa að mæta tilbúnir til leiks," sagði Ferguson.

„Sendingarnar í leiknum gegn Barcelona voru ekki að heppnast. Það er mjög óvanalegt hjá okkur en ég er viss um að sá þáttur verði í fínu lagi um helgina," sagði Ferguson og telur að jöfnunarmark Chelsea gegn Liverpool í vikunni hafi blásið sjálfstraust þeirra bláu upp.

Leikur Chelsea og Manchester United hefst klukkan 11:45 á laugardag og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×