Fótbolti

Hitzfeld hafnaði Englandi og Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ottmar Hitzfeld og Alexander Frei, leikmaður svissneska landsliðsins.
Ottmar Hitzfeld og Alexander Frei, leikmaður svissneska landsliðsins. Nordic Photos / AFP

Ottmar Hitzfeld, landsliðsþjálfari Sviss, hefur greint frá því að hann hefur hafnað mörgum gylliboðum í gegnum tíðina.

Hann stýrði liði Bayern München í annað skiptið á ferlinum á síðasta tímabili og tók svo við landsliði Sviss í sumar.

„Ég ákvað að taka við starfi landsliðsþjálfara hjá Sviss þar sem ég myndi njóta frekar vinnu minnar þar og ekki vera undir jafn miklum þrýstingi fjölmiðla," sagði Hitzfeld í samtali við rússneskt dagblað.

„Mér var boðið að taka við landsliðum Englands, Kamerún og Fílabeinsstrandarinnar en ég ákvað frekar að hlýða hjarta mínu, þar sem ég er hálfur Svisslendingur."

„Heimili mitt er einum kílómetra frá landamærum Sviss í Þýskalandi og það hentar mér vel."

Hitzfeld var fyrst þjálfari Bayern München frá árunum 1998 til 2004 og tók sér svo frí í þrjú ár. Hann segir að hann hafi hafnað Chelsea, Real Madrid, Borussia Dortmund sem og þýska landsliðinu.

„Árið 2004 var mér boðið að taka við þýska landsliðinu en ég varð að hafna því af heilsufarsástæðum."

„Það gerði mér mjög gott að taka mér þetta frí og losa mig undan þeirri streitu sem fylgir þjálfarastarfinu."

„Þegar ég fór aftur að vinna fékk ég boð frá Real Madrid, Chelsea og Dortmund en ég hikaði ekki þegar mér bauðst að koma aftur til Bayern München og tók tilboðinu samstundis."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×