Íslenski boltinn

Glæsilegur sigur Íslands á Slóveníu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar öðru marka sinna á Laugardalsvelli í dag.
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar öðru marka sinna á Laugardalsvelli í dag. Nordic Photos / Getty Images

Ísland vann í dag glæsilegan 5-0 sigur á Slóveníu á Laugardalsvelli en leikurinn var liður í undankeppni EM 2009.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fyrstu þrjú mörk Íslands í leiknum, það fyrsta úr víti. Katrín Jónsdóttir, fyrirliði, bætti svo við fjórða markinu og Katrín Ómarsdóttir því fimmta.

Vísir var með beina lýsingu frá leiknum sem má lesa hér að neðan.



15.55 Ísland - Slóvenía 5-0 - Leik lokið


Ísland ber hér glæsilegan sigur úr býtum þar sem Slóvenar voru gjörsamlega yfirspilaðir. Gestirnir komust varla í sókn eftir að Ísland skoraði í leiknum og var sigurinn því aldrei í hættu.

Árangur Margrétar Láru Viðarsdóttur er einnig eftirtektarverður en hún hefur nú skorað 40 mörk í 42 landsleikjum sem er vitanlega ótrúlegt afrek. Með þessu áframhaldi gæti hún náð meðaltalinu eitt mark í hverjum landsleik eftir leikinn gegn Grikkjum á fimmtudaginn.

Ísland er með markatöluna 19-2 í riðlinum sem sýnir vel styrk liðsins. Einu mörkin sem Ísland hefur fengið á sig til þessa voru mörkin sem Slóvenar skoruðu á heimavelli en Ísland hefur haldið hreinu í hinum fimm leikjum sínum í riðlinum.

Ísland er nú með fimmtán stig í riðli sínum í undankeppni EM 2009 eftir sex leiki. Liðið er þremur stigum á eftir Frökkum sem er í efsta sæti riðilsins með átján stig.

Ísland á þó leik til góða og getur með sigri gegn Grikkjum á fimmtudag jafnað árangur Frakka. Ísland og Frakkland mætast í lokaumferð riðlakeppninnar ytra og dugir Íslendingum jafntefli þar til að tryggja sig beint á EM í Finnlandi á næsta ári.

15.43 Ísland - Slóvenía 5 -0

Nú kom fimmta markið og í þetta sinn var það Katrín Ómarsdóttir sem skoraði. Sif Atladóttir tók langt innkast á hægri kantinum. Varnarmaður Slóvaka skallaði boltann beint fyrir fætur Katrínar sem skoraði með öflugu skoti. Glæsilegt mark. Nú er ein mínúta eftir af venjulegum leiktíma.

15.43 Ísland - Slóvenía 4 -0

Ísland skorar fimmta markið í leiknum en það var dæmt af vegna rangstöðu. Katrín Jónsdóttir skallaði knöttinn aftur í markið en markið fékk ekki að standa.

15.36 Ísland - Slóvenía 4 -0

Ísland komst nálægt því að bæta fimmta markinu við eftir hörkusókn. Varamaðurinn Rakel Hönnudóttir á hörkuskot í slá og Hólmfríður fylgdi því eftir með skalla að marki sem var bjargað á marklínu.

15. 2 8 Ísland - Slóvenía 4 -0

Ásta Árnadóttir er tekin af velli og Sif Atladóttir kemur inn í hennar stað. Ásta, sem hefur tekið flikk-flakk innköst allan leikinn, kveður áhorfendur með handahlaupi og heljarstökki, við mikinn fögnuð viðstaddra.

15. 2 1 Ísland - Slóvenía 4 -0

Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins hefur bætt fjórða markinu við. Edda Garðarsdóttir tók aukaspyrnu á hægri kantinum, renndi boltanum á Hólmfríði Magnúsdóttur sem gaf fasta sendingu inn í teig. Þar var Katrín mætt á fjarstöng og stýrði boltanum í markið.

15.16 Ísland - Slóvenía 3 -0

Margrét Lára Viðarsdóttir er tekin af velli og er sjálfsagt hvíldinni fegin enda virðist hún eiga við smávægileg meiðsli að stríða. Hún hefur þó skilað sínu í dag og skorað öll mörk Íslands í leiknum.

15.09 Ísland - Slóvenía 3 -0

Íslenska liðið byrjar af krafti í seinni hálfleik og er ekki nema fimm mínútur að bæta við þriðja markinu í leiknum. Aftur var Margrét Lára að verki. Edda Garðarsdóttir tók hornspyrnu beint á Katrínu Ómarsdóttir sem lagði boltann út á Margréti Láru sem skoraði með föstu skoti. Hennar fertugasta landsliðsmark.

15.05 Ísland - Slóvenía 2 -0

Síðari hálfleikur er hafinn hér á Laugardalsvelli. 3922 manns eru á vellinum í dag.

14. 4 9 Ísland - Slóvenía 2 -0

Kominn hálfleikur hér á Laugardalsvelli. Ísland hefur mikla yfirburði í leiknum og þarf mikið að gerast ef Íslendingar ætla að missa niður forskot sitt í leiknum. Leikurinn var mjög rólegur eftir að Margrét Lára skoraði síðara mark sitt í leiknum.

14.36 Ísland - Slóvenía 2 -0

Tíu mínútur eru nú eftir af fyrri hálfleik. Það hefur ekki mikið gerst síðustu tíu mínúturnar en þær slóvensku hafa þó ekkert náð að sækja að ráði. Ísland er enn með góð tök á þessum leik.

14.27 Ísland - Slóvenía 2 -0

Glæsileg sókn hjá íslenska liðinu. Hólmfríður Magnúsdóttir gerði mjög vel er hún fór inn í teig Slóvena, dró varnarmenn liðsins að sér og renndi síðan boltanum á Margréti Láru sem stóð ein fyrir framan markið og renndi boltanum í fjærhornið. Þar með er Margrét Lára komin með 39 landsliðsmörk.

14.23 Ísland - Slóvenía 1-0

Ísland hefur nú tekið öll völd á vellinum og sótt nokkuð stíft síðustu mínúturnar án þess þó að hafa náð að skapa sér góð færi.

14.11 Ísland - Slóvenía 1-0

Margrét Lára Viðarsdóttir hefur komið Íslandi yfir með marki úr aukaspyrnu. Ísland átti góða sókn sem hófst með því að Dóra María Lárusdóttir gaf fyrir frá hægri. Margrét Lára tók boltann og stormaði inn í teig þar sem brotið var á henni og vítið dæmt.

Frábært fyrir íslenska liðið sem hefur verið nokkuð stirt hér í upphafi leiksins. Þetta var 38. mark Margrétar Láru í 42 landsleikjum. Ótrúlegur árangur.

14.08 Ísland - Slóvenía 0-0

Margrét Lára á skalla að marki úr fínu færi en boltinn fór yfir markið. Fyrsta færi íslenska liðsins staðreynd.

14.06 Ísland - Slóvenía 0-0

Ísland á sína fyrstu sókn í leiknum er Edda Garðarsdóttir á háa fyrirgjöf inn á teig úr aukaspyrnu. Enginn íslensku leikmannanna nær þó til boltans.

14.0 4 Ísland - Slóvenía 0-0

Slóvenar eiga fyrsta skot leiksins en það er með öllu hættulaust. Íslenska liðið á enn eftir að finna taktinn í leiknum.

14.01 Ísland - Slóvenía 0-0

Leikurinn er hafinn hér á Laugardalsvelli. Það er talsverður fjöldi áhorfenda mættur á leikinn en þó er talsvert frá því að það sé uppselt á leikinn. Stúkan í austurenda vallarins er til að mynda ekki í notkun. Þeir áhorfendur sem eru á vellinum láta vel í sér heyra, ekki síst Tólfan.

13.46

Boðið er upp á gullfallegt veður hér í Laugardalnum, smá gjólu og sólskin. Það er því allt til reiðu fyrir skemmtilegan knattspyrnuleik á þjóðarleikvanginum.

Ísland ætlar sér sigur í dag og hefna þar með fyrir eina tapið í undankeppninni til þessa, gegn Slóvenum ytra. Ísland var þá mun meira með boltann og komst yfir með marki Margrétar Láru Viðarsdóttur strax á fjórðu mínútu.

En Slóvenar skoruðu úr báðum sóknum sínum í leiknum og unnu 2-1 sigur þó svo að íslenska liðið hafi sótt linnulaust í leiknum.

Byrjunarlið Íslands í dag:

Markvörður: Þóra Helgadóttir, Anderlecht.

Hægri bakvörður: Ásta Árnadóttir, Val.

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir, KR.

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði, Val og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, KR.

Tengiliðir: Edda Garðarsdóttir, KR og Katrín Ómarsdóttir, KR.

Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir, Haukum.

Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir, Val.

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir, KR

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir, Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×