Enski boltinn

Eigum ekki að vera stressaðir á Wembley

Nordic Photos / Getty Images

Fabio Capello var nokkuð ánægður með lærisveina sína í enska landsliðinu í kvöld þegar Englendingar lögðu Svisslendinga 2-1 í æfingaleik á Wembley. Honum þykir ekki nógu gott að ensku leikmennirnir séu taugaóstyrkir á eigin heimavelli.

"Þeir spiluðu vel og sköpuðu sér nokkur góð færi - þetta var fín frammistaða. Þeir voru hinsvegar nokkuð taugaóstyrkir í byrjun vegna þeirrar pressu sem fylgir því að spila á Wembley og við verðum að breyta því," sagði Capello sem stýrði enska liðinu í fyrsta sinn í kvöld.

"Það sem skipti mestu máli var að sjá strákana koma saman aftur og vinna sigur. Það eru augljóslega nokkrir hlutir sem við þurfum að laga hjá okkur, en Svisslendingarnir skoruðu úr fyrsta færinu sínu í leiknum þannig að við gerðum ekki mikið af mistökum," sagði Capello.

"Það var gott að koma á Wembley, andrúmsloftið þar er alltaf tilfinningaþrungið. Ég var búinn að sjá leikmennina spila fyrir félagslið sín og nú vildi ég sjá hvernig þeir stæðust pressuna sem fylgir því að spila á Wembley. Þeir stóðust hana vel í kvöld."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×