Erlent

Minnast loka fyrri heimsstyrjaldar

MYND/AP

Níutíu ár eru í dag frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Þeirra tímamóta er minnst víða um heim í dag.

Um tuttugu milljónir manna féllu í fjögurra ára átökum Þjóðverja og Bandamanna. Stríð skall á 28. júlí 1914 og lauk með vopnahlé 11. nóvember 1918. Ný landamæri voru mörkuð í Evrópu eftir átökin. Stórveldi fyrri tíma féllu og ný urðu til. Yfirráð Evrópu yfir heiminum liðu undir lok eftir stríðið.

Stríðslokanna er minnst víða í dag. Stærsta athöfnin fór fram í Verdun í norðausturhluta Frakklands í morgun. Þar börðust franskir og þýskir hermenn í átta mánuði. Orrustan þar var sú lengsta í öllu stríðinu. Verdun hefur síðar orðið táknrænn staður fyrir sættir Frakka og Þjóðverja. Karl Bretaprins og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti voru meðal heiðursgesta.

Stríðslokanna var einnig minnst í Ástralíu í nótt. Kevin Rudd forsætisráðherra Ástralíu sagði í ræðu að síðasta öld hefði verið ein sú blóðugasta og sagðist hann vona að sú tuttugasta og fyrsta yrði friðsöm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×