Erlent

Kjarnorkusprengja undir ísnum á Grænlandi?

Bandarísk kjarnorkusprengja er talin liggja undir ísnum á norðvesturhluta Grænlands, nærri Thule ratsjárstöðinni. Bandarísk sprengjuflugvél fórst þar fyrir fjörutíu árum. Ein fjögurra kjarnorkusprengja um borð fór í sjóinn og fannst aldrei.

Eldur kviknaði í B52-sprengjuflugvél á flugi yfir Norðvestur-Grænlandi 1968. Breska ríkisútvarpið BBC fjallar um málið og vitnar til skjala sem leynd hefur verið létt af. Fjórar kjarnorkusprengjur voru í flugvélinni auk sprengiefnis sem nota átti til að framkalla sprengingu í þeim. Það sprengiefni sprakk í slysinu en ekki kjarnorkusprengjurnar sjálfar sem voru ekki virkar.

Þrjár sprengjurnar brotnuðu í sundur og samkvæmt gögnum mun geislavirkt efni hafa dreifst um stórst svæði.

Ein sprengjan brotnaði hins vegar ekki. Ísinn undir henni mun hafa bráðnað og hún sokkið á hafsbotn undan norð vesturströnd Grænlands nærri Thule-radarstöðinn. Samkvæmt gögnunum mun hennar hafa verið leitað í nokkurn tíma án árangurs.

Að lokum hafi þeirri leit verið hætt með þeim rökum að ef bandarískum sérfræðingum með nýjustu tækni tækist ekki að finna hana gætu aðrir það ekki og þannig ómögulegt að vopnið rataði í hendur Sovétmanna. Auk þess væri óhætt að skilja sprengjuna eftir á hafsbotni. Umhverfisáhrif yrðu minniháttar á jafn stóru hafsvæði og um væri að ræða.

Síðan þetta gerðist hefur margt komið fram sem bendi til annars að sögn fréttamanns BBC. Hann hefur rætt við grænlenska veiðimenn á svæðinu sem merki þetta á iðrum sela sem þeir veiði. Þau séu oft uppþornuð. Þorpsbúar nærri slysstað hafa sumir veikst óvænt og fengið sjúkdóma sem ógjörningur hafi verið að greina. Danskir björgunarmenn sem sendir voru að flaki flugvélarinnar eftir slysið hafa sumir veikst og telja að öryggi þeirra hafi ekki verið tryggt, þeir hafi ekki fengið hlífðarbúnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×