Erlent

Óttast hungursneyð í Simbabve

Robert Mugabe, forseti Simbabve, hefur verið gagnrýndur fyrir stjórnarhætti sína enda hefur ástandið í landinu hríðversnað síðustu ár.
Robert Mugabe, forseti Simbabve, hefur verið gagnrýndur fyrir stjórnarhætti sína enda hefur ástandið í landinu hríðversnað síðustu ár. MYND/AP

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ákveðið að minnka matarskammta sem hún deilir út í Simbabve vegna þess að engin viðbrögð hafi borist við ósk stofnunarinnar um 140 milljóna dollara framlag til þess að fæða hina sveltandi í landinu.

Alls er talið að um fimm milljónir manna, um helmingur þjóðarinnar, muni þurfa að reiða sig á matargjafir í Simbabve á næstu mánuðum en Matvælastofnunin segir að birgðir hennar muni klárast í janúar næstkomandi komi ekki til frekari aðstoð. Til þess að bregðast við ástandinu hefur stofnunin minnkað mánaðarlega matarskammta til hverrar manneskju úr tólf kílóum í tíu.

Haft er eftir talsmanni Matvælastofnunarinnar að ástandið í mörgum héruðum landsins geti orðið mjög alvarlegt á næstu mánuðum fáist ekki fjármunir til þess að kaupa mat. Næsta uppskera í landinu er ekki væntanleg fyrr en í apríl.

Við þetta bætist ringulreið í stjórnmálum landsins en stjórn og stjórnarandstaða hafa ekki getað komið sér saman um hvernig skipta skuli embættum í þjóðstjórn. Hefur Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, varað við því að allt að ein milljón manna geti látist úr hungri á næsta ári ef ekki náist samkomulag um ríkisstjórn og þar með stefnu landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×