Enski boltinn

Brad Friedel er leikmaður 35. umferðar

NordcPhotos/GettyImages

Markvörðurinn síungi Brad Friedel hjá Blackburn fór hamförum í 1-1 jafntefli liðsins gegn Manchester United um helgina og hlaut fyrir vikið nafnbótina leikmaður 35. umferðar.

Smelltu hér til að sjá myndband með tilþrifum Friedel gegn United.

Framherjinn sterki Roque Santa Cruz kom Blackburn yfir gegn United um helgina en Brad Friedel neitaði meisturunum hvað eftir annað með frábærum markvörslum.

Það var ekki fyrr en í blálokin sem Carlos Tevez náði svo að jafna leikinn fyrir United og tryggja liðinu mikilvægt stig í toppbaráttunni.

Friedel er 36 ára gamall Bandaríkjamaður og framlengdi samning sinn við Blackburn fyrir skömmu. Mark Hughes knattspyrnustjóri hefur komið víða við á ferlinum sem leikmaður og síðar stjóri, og hann hrósaði markverði sínum í hástert fyrir leikinn gegn United um helgina.

"Brad er eins góður hvaða markvörður og ég hef spilað með sem leikmaður eða stjóri og stenst samanburð við menn eins og Peter Schmeichel og Neville Southall. Hann er toppmarkvörður og stöðugleiki hans og fagleg nálgun hafa tryggt að hann er alltaf í fremstu röð. Hann er á toppnum af því hann vinnur fyrir því," sagði Hughes.

Nafn: Brad Howard Friedel

Fæddur: Ohio í Bandaríkjunum 18. maí 1971

Félög: Newcastle (lán), Bröndby (lán), Galatasaray, Columbus Crew, Liverpool, Blackburn (frá árinu 2000).

Númer: 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×