Innlent

Tugmilljónatjón hjá OR vegna bilunar í Nesjavallastreng

Orkuveita Reykjavíkur horfir fram á tugmilljóna króna tjón eftir að háspennustrengurinn frá Nesjavöllum brann yfir einhvers staðar á leiðinni til Reykjavíkur um helgina. Talið er að atvikið megi rekja til bilunar í öðrum streng sem olli rafmagnsleysi í Grafarvogi, Mosfellsbæ og víðar á austurhluta höfuðborgarsvæðisins í síðustu viku.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að keðjuverkun atburða hafi valdið því að strengurinn, sem er 132 kílóvolt, brann yfir. „Það liggur strengjaleið um höfuðborgina og strengur sem liggur frá Korpu að Barónstíg fór í sundur í Elliðavoginum og það olli rafmagsleysi í Grafarvoginum og víðar í síðustu viku. Þegar hann fer í sundur gerist kannski eitthvað sem erfitt er að skýra en það er sennilegt að það hafi komið högg á kerfið sem leiddi til þess að Nesjavallastrengurinn brann yfir. Þess vegna er engin framleiðsla á Nesjavöllum," segir Hjörleifur.

„Það mun taka okkur nokkurn tíma að koma strengnum í lag og það er ekki gert ráð fyrir að viðgerð ljúki fyrr en á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku." segir Hjörleifur enn fremur og segir að sérfræðingar frá útlöndum hafi verið kallaðir til. Hins vegar getur tekið allt að mánuð að gera við strenginn sem skemmdist í Elliðavoginum í síðustu viku. Þar er talið að framkvæmdir á vegum Faxaflóahafna, sem leiddu til þess að aukið farg kom á strenginn, hafi leitt til bilunarinnar.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Nesjavallavirkjun selur orku bæði til almennra notenda og Norðuráls á Grundartanga og segir Hjörleifur að Orkuveitan sjái öllum viðskiptavinum sínum fyrir rafmagni þrátt fyrir bilunina. „Við kaupum rafmagn af Landsvirkjun inn á kerfið í gegnum Landsnet en það er ekki nóg þannig að við verðum að skerða orkuafhendingu til Norðuráls. Það er þó ekki mikið, aðeins yfir álagstíma og skerðingin er aðeins nokkur megavött," segir Hjörleifur.

Aðspurður segir hann þessa bilun mjög kostnaðarsama. „Vinnan bara við viðgerðina á strengjunum kostar tugi milljarða," segir Hjörleifur. Þá verði fyrirtækið fyrir tekjutapi þar sem það geti ekki selt orku frá Nesjavallavirkjun. Aðspurður segir hann menn ekki hafa reiknað það út. „Vonandi kemst þetta í eðlilegt horf sem allra fyrst en þetta er töluvert áhyggjuefni," segir Hjörleifur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×