Innlent

Ráðherra ræddi um embætti vegamálastjóra við Vegagerðarfólk

MYND/Vilhelm

Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði þá spurningu óviðeigandi hvort hæfniskröfur í auglýsingu um embætti vegamálastjóra væru til að útiloka Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóra í stöðuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá starfsmannafélagi miðstöðvar og Suðvestursvæðis hjá Vegagerðinni.

Þar segir að ráðherra hafi fundað með starfsmönnum Vegagerðarinnar í gær vegna auglýsingarinnar. Starfsmannafélagið hafði ásamt BHM gagnrýnt ráðherra fyrir að þrengja hæfisskilyrði í auglýsingu um stöðu vegamálastjóra á þann hátt að krefjast verkfræðimenntunar eða sambærilegrar menntunar, en slíkt var ekki gert þegar embættið var auglýst síðast.

Háskólamenntun sem getur verið á öðru sviði en verkfræði

Í tilkynningu frá starfsmannafélaginu vegna fundarins í gær segir að það fagni og þakki samgönguráðherra fyrir skjót viðbrögð við bréfi sem stjórnin sendi honum í síðustu viku. „Í máli hans kom fram að ljúft væri að upplýsa að sambærilegri menntun við verkfræðimenntun væri átt við háskólamenntun sem getur verið á öðrum sviðum en verkfræði, þó þannig að umsækjandi hafi lokið meistaraprófi eða kandídatsprófi samkvæmt eldra skipulagi háskólanáms. Jafnframt tilkynnti ráðherra hverjir hefðu sótt um stöðuna. Aðspurður hafnaði ráðherra eindregið þeirri spurningu hvort hæfniskröfur í auglýsingunni væru til að útiloka Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóra í stöðu vegamálastjóra og taldi spurninguna óviðeigandi," segir í tilkynningunni.

Þess má geta að BHM hefur ekki sætt sig við skýringar ráðherra og hefur ítrekað kröfu sína um að hann dragi auglýsinguna til baka og auglýsi embættið á ný.

Beðið eftir úttekt Ríkisendurskoðunar

Á fundinum með Vegagerðarfólki svaraði ráðherra einnig spurningum sem hafa vaknað vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga en greint var frá þeim í auglýsingu á embætti vegamálastjóra. „Í svörum ráðherra kom fram að engar ákvarðanir hafi verið teknar um skipulagsbreytingar. Það er beðið eftir skýrslu ríkisendurskoðanda en hann vinnur nú að stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni og Siglingastofnun," segir í tilkynningunni. Samkvæmt upplýsingum Vísis fundaði ráðherra með starfsmönnum Siglingastofnunar vegna sama máls í morgun.

„Tillögur um skipulagsbreytingar sem hann mun hugsanlega leggja fram verða þá teknar til athugunar. Ráðherra sagði þó að ekki stæðu fyrir dyrum meiriháttar breytingar á Vegagerðinni né stæði til að flytja starfsemi hér í Reykjavík út á land enda væri starfsemi Vegagerðarinnar dreifð um allt land og mættu aðrar stofnanir taka hana sér til fyrirmyndar hvað það varðar.

Á fundinum kom fram að allar skipulagsbreytingar sem yrðu hugsanlega gerðar yrðu unnar í samvinnu við starfsmenn Vegagerðarinnar. Stjórnin fagnar boðuðu samstarfi og er tilbúin til að taka þátt í því með ráðuneytinu," segir að lokum í tilkynningu frá starfsmannafélagi Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir

BHM ítrekar kröfu um að ráðherra dragi auglýsingu til baka

Bandalag háskólamanna sættir sig ekki við svör Kristjáns L. Möller samgönguráðherra vegna auglýsingar á embætti vegamálastjóra og ítrekar kröfu sína um að ráðherra dragi auglýsinguna til baka. Þá vill bandalagið staðan verði augýst að nýju þannig að gegnsæi sé tryggt og ráðuneytið verði ekki af hæfum umsækjendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×