Innlent

Framhaldssamkeppni um hönnun óperuhúss

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri og óperuunnandi.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri og óperuunnandi. MYND/Hrönn

Engin þeirra tillagna sem bárust í samkeppni um hönnun óperuhúss í Kópavogi þótti nógu góð til þess að hún yrði valin ein og sér og því verður efnt til framhaldssamkeppni með þátttöku tveggja aðila sem bestar tillögur lögðu fram. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Salnum í Kópavogi í dag þar sem undirbúningsnefnd að byggingu óperuhússins kynnti niðurstöður dómnefndar í samkeppni um hönnun hússins.

Fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ að þremur íslenskum ariktektastofum hafi verið boðið að taka þátt í keppninni og áttu þær að fá til liðs við sig erlenda samstarfsaðila sem hefðu reynslu af hönnun óperuhúsa eða sambærilegra mannvirkja. Gert var ráð fyrir að framkvæmdakostnaður við húsið næmi 2,5 milljónum og að það yrði risið árið 2010.

Þátt tóku arkitektastofurnar ASK Arkitektar ehf. ásamt Lund & Valentin Arkitekter, ALARK arkitektar ásamt David Crossfield Associates og Arkþing ehf. ásamt Arkitema K/S. „Dómnefndin taldi enga tillögu uppfylla markmið samkeppninnar nægjanlega vel til að unnt yrði á þessu stigi að velja eina þeirra til útfærslu. Tillögurnar hefðu þó verið metnaðarfullar, ólíkar og fjölbreyttar og borið með sér að í þær hefði verið lögð töluverð vinna og metnaður," segir í tilkynningunni.

Hins vegar þóttu tillögur ALARK og Arkþings það áhugaverðar að hægt væri að vinna með þær áfram og mælti dómnefndin með því við undirbúningsnefndina að leitað yrði samstarfs við höfundana um þátttöku í framhaldskeppni. Undirbúningsnefndin samþykkti þá tillögu dómnefndar og höfundar tillagnanna hafa fallist á að taka þátt í slíkri keppni. Henni á að ljúka á hér um bil tveimur mánuðum.

Í dómnefnd sitja Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri, formaður, Stefán Baldursson óperustjóri og arkitektarnir Ásdís Ingþórsdóttir, Ólafur Axelsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson. Undirbúningsnefnd skipa Gunnar I. Birgisson, Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar, Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi, Stefán Baldursson óperustjóri og Jón Helgi Guðmundsson forstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×