Innlent

Foreldrar skipti greiðslum á milli sín

Borgarstjórn Reykjavíkur.
Borgarstjórn Reykjavíkur.

Leikskólaplássum verður fjölgað og ný þjónustuúrræði fyrir börn og foreldra í Reykjavík tekin í gagnið samkvæmt aðgerðaráætlun sem fulltrúar meirihlutans kynntu á leikskólanum Laufásborg í dag.

Í áætluninni, sem ber yfirskriftina Borgarbörn kemur fram að á næstu fjórum árum verði leikskólaplássum fjölgað með því að byggja nýja leikskóla og nýjum deildum bætt við rótgróna leikskóla.

Í áætluninni eru jafnframt tímasetningar á nýjum úrræðum í þjónustu við dagforeldra, samningar við dagforeldra, þjónustutrygging, ungbarnaskólar, jöfnun niðurgreiðslna til sjálfstætt rekinna leikskóla, auk rafrænnar innritunar í leikskóla samhliða nýjum upplýsingavef um dagvistunarmöguleika.

Þjónustutrygging fyrir þá sem fá ekki dagmömmu

Þjónustutryggingin er greiðsla sem verður jafnhá þeirri sem Reykjavíkurborg greiðir með barni sem er í vistun hjá dagforeldri. Hún mun standa til boða eftir að fæðingarorlofi lýkur, við 6 mánaða aldur hjá einstæðum foreldrum og við 9 mánaða aldur hjá giftum foreldrum og þeim sem eru í sambúð. Gert er ráð fyrir að þjónustutryggingin muni gilda þar til barnið fái boð um vistun í leikskóla eða gefist kostur á dagforeldri að ósk foreldra. Samkvæmt áætlun Reykjavíkur mun þjónustutryggingin standa til boða frá 1. september næstkomandi.

Foreldrar skipti greiðslunni á milli sín

Samkvæmt áætluninni munu foreldrar sem þiggja þjónustutryggingu en ráðstafa henni ekki til þriðja aðila, skipta á milli sín greiðslutímabilinu á sambærilegan hátt og lög um fæðingarorlof gera ráð fyrir. Markmiðið með skiptingu á milli foreldra er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu og atvinnulíf.

Borgarbörn gerir enn fremur ráð fyrir því að árið 2012 verði annaðhvort leikskólapláss eða vistun hjá dagforeldrum í boði fyrir öll börn 12 mánaða og eldri.

Þá ætlar leikskólaráð að láta fara fram rannsókn á því hvernig reykvískir foreldrar haga umönnun barna sinna frá því að fæðingarorlofi lýkur og hvernig foreldrar nýta tímabundna þjónustutryggingu. Rannsóknin verður unnin í samstarfi við Rannsóknarstofu í barna- og fjölskylduvernd við HÍ.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×