Innlent

Tíu vilja í embætti vegamálastjóra

Jón Rögnvaldsson hættir sem vegamálastjóri um næstu mánaðamót.
Jón Rögnvaldsson hættir sem vegamálastjóri um næstu mánaðamót. MYND/Sterfán Bogi

Tíu manns sóttu um embætti vegamálastjóra sem auglýst var nýverið, þar á meðal þrír úr fimm manna yfirstjórn Vegagerðarinnar. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri hættir um næstu mánaðamót og var auglýst eftir umsóknum um embættið í síðasta mánuði.

Gagnrýnt var hversu þröng hæfisskilyrði voru sett í auglýsingunni, en krafist var háskólamenntunar í verkfræði eða sambærilegrar menntunar. Slíkt var ekki gert þegar embættið var auglýst síðast. Bæði Bandalag háskólamanna og starfsmannafélag Miðstöðvar og Suðvestursvæðis hjá Vegagerðinni sendu frá sér yfirlýsingar og fóru fram á að það að Kristján L. Möller samgönguráðherra auglýsti stöðuna á ný þar sem of þröng hæfisskilyrði væru sett í auglýsingunni.

Fimm manns eru í yfirstjórn Vegagerðarinnar, þar á meðal Jón Rögnvaldsson, fráfarandi vegamálastjóri. Auk hans eru þar Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri, Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Jón Helgason, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs, og Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs. Gunnar, Hreinn og Jón sækja allir um embættið.

Auk þeirra sækja þau Auður Þóra Árnadóttir forstöðumaður, Árni Freyr Stefánsson umferðarverkfræðingur, Bjarki Jóhannesson sviðsstjóri, Eiríkur Bjarnason verkfræðingur, Guðrún Þóra Garðarsdóttir verkfræðingur, Gunnar Linnet forstöðumaður og Jón Sævar Jónsson framkvæmdastjóri um embættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×