Innlent

Niðurrif húsa við Mýrargötu hafið

Myndin er á vefsíðu Faxaflóahafna.
Myndin er á vefsíðu Faxaflóahafna.

Hafið er niðurrif húsa á slippasvæðinu við Mýrargötu, en þetta verk er hluti þeirra undirbúningsverka sem fylgja þróun og enduruppbyggingu Mýrargötu - Slippasvæðis.

Greint er frá málinu á vefsíðu Faxaflóahafna. Þar segir að unnið hafi verið að undirbúningi þessa máls síðustu árin, botn og strönd svæðis hefur verið hreinsuð og land fyllt fram.

Nú í vor hefst síðan gatnagerð á svæðinu og samhliða þurfa eldri byggingar og mannvirki að víkja. Verkið verður unnið í áföngum og samhliða víkur burt sú smiðju - og skipaviðgerðastarfsemi sem þessi hús hafa hýst svo lengi sem elstu menn muna.

Niðurrif húsanna við Mýrargötu var boðið út í lok síðasta árs og verktakinn, Abltak ehf hófst síðan handa við niðurrif húsa á lóðinni Mýrargata 10 -12 í lok mars. Þegar að þeim verkáfanga lýkur hefst síðan niðurrif húsa á lóðinni Mýrargata 22, en þar er í dag smiðjustarfsemi Stálsmiðjunnar ehf til húsa.

Reiknað er með að verklok verði um mitt sumar og ásýnd svæðis þá orðin talsvert breytt frá því sem að hún áður var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×