Innlent

Tókst með naumindum að bjarga lífi öryggisvarðar

MYND/Valli

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður sem grunaður er um að hafa slegið öryggisvörð í höfuðið með glerflösku í verslun 10-11 í Austurstræti um helgina skuli sæta gæsluvarðhaldi þar til á morgun.

Eins og fram hefur komið í fréttum var öryggisvörðurinn um tíma þungt haldinn á gjörgæsludeild enda blæddi inn á heilann. Segir í greinargerð lögreglu með gæsluvarðhaldsúrskurði að heilablæðingin hafi verið lífshættuleg og tekist hafi með naumindum að bjarga lífi öryggisvarðarins. Hann er nú á góðum batavegi.

Árásarmaðurinn hafði verið til vandræða í versluninni fyrr um nóttina og verið fjarlægður þaðan af lögreglu. Hann kom síðan aftur að versluninni um klukkustund síðar og réðst á öryggisvörðinn utan við verslunina og sló hann í höfuðið með glerflösku.

Getur ekki rengt árásina

Við yfirheyrslu hefur árásarmaðurinn greint frá því að hann hefði ásamt félaga sínum verið staddur við verslun 10-11. Öryggisvörður hafi meinað honum inngöngu í verslunina og hann því orðið pirraður. Ögrandi orðaskipti hafi verið milli hans og öryggisvarðarins og hafi komið til átaka milli þeirra. Kærði segist ekki muna eftir að hafa slegið öryggisvörðinn með flösku í höfuðið en aðspurður segist hann ekki geta rengt það.

Fram kemur í greinargerð lögreglu að brotið sé sérstaklega alvarlegt og svo virðist sem litlu hafi mátt muna að bani hafi hlotist af atlögunni. Rannsókn málsins sé skammt á veg komin. Eftir sé að yfirheyra vitni og öryggisvörðinn. Þá sé eftir að afla upptöku úr eftirlitsmyndavél utan dyra sem skýrt geti nánar atvik málsins og aðdraganda og hvort fleiri vitni séu til staðar sem upplýst geti frekar um meintan verknað. Gangi árásarmaðurinn laus geti hann spillt fyrir rannsókn málsins með því að hafa áhrif á framburði vitna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×