Innlent

Aðstoðuðu drukkinn útlending sem talaði torkennilegt mál

MYND/HKr

Lögreglan á Akranesi lenti í nokkrum vandræðum aðfararnótt sunnudags þegar hún aðstoðaði illa drukkinn útlending í bænum að komast til síns heima.

Í dagbók lögreglunnar segir að maðurinn hafi verið villtur í miðbænum. Sá skildi hvorki ensku né íslensku og talaði torkennilegt mál að sögn lögreglu. Þá gat hann með engu móti munað hvar hann átti heima en teiknaði áhugavert kort fyrir lögreglumenn og sagðist eiga heima um það bil 5-10 kílómetra frá Hvalfjarðargöngunum.

Ekki gekk að fá upp úr honum nafn né fæðingardag fyrr en lagið Happy Birthday var sungið fyrir hann og leiddi uppfletting í Þjóðskrá í ljós að maðurinn átti heima á Akranesi. Honum var svo komið að heimili sínu og gekk hann sæll inn og þakkaði kærlega fyrir sig eða það var að minnsta kosti talið líklegt miðað við látbragð hans, segir lögregla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×