Innlent

Kostnaður við framboð til Öryggisráðs yfir 250 milljónir króna

Frá fundi öryggisráðsins.
Frá fundi öryggisráðsins. MYND/AP

Kostnaður við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í haust nemur um 250-300 milljónir króna frá árinu 2001 og Ísland hefur fengið skrifleg vilyrði um stuðning frá á annað hundrað af 192 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.

Í ræðu sinni um utanríkis- og alþjóðamál á Alþingi í dag sagði ráðherra að lokaspretturinn í framboði Íslands væri nú hafinn en keppt er við Tyrki og Austurríkismenn um tvö laus sæti í öryggisráðinu fyrir árin 2009-2010.

Ingibjörg Sólrún benti að ekki væri á vísan að róa í leynilegum kosningum líkt og þeim sem fram færu hjá Sameinuðu þjóðunum í haust og ríki gæti ekki fagnað sigri fyrr en talið hefði verið talið upp úr kjörkössum. ´

Tilbúin og með báða fætur á jörðinni

Þá sagði Ingibjörg að íslensk stjórnvöld hefðu eðli málsins samkvæmt unnið að setunni í ráðinu fari svo að Ísland nái kjöri. Unnið hefði verið að málefnayfirliti og greiningu á helstu umfjöllunarefnum ráðsins en þar stæðu upp úr 31 átakamál og sex meginmálaflokkar. „Komi til þess að við náum kjöri fullyrði ég að við verðum tilbúin og með báða fætur á jörðinni," sagði Ingibjörg.

Sem fyrr segir benti Ingibjörg á að Ísland hefði varið á bilinu 250-300 milljónum króna til framboðsins síðastliðin sjö ár. Fréttir hefðu borist af því að keppinautarnir hefðu rekið dýra kosningarbaráttu en Ingibjörg Sólrún lýsti því yfir að Ísland myndi ekki ástunda fjáraustur á lokasprettinum.

Þá sagði ráðherra að framboðið hefði þegar skilað ávinningi til framtíðar. Frá árinu 1998, þegar Ísland lýsti yfir framboði til öryggisráðsins, hefði verið tekið upp stjórnmálasamband við 75 ríki.

Skýrslu utanríkisráðherra má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×