Innlent

Samdráttur í sölu nýrra bifreiða vel merkjanlegur

Í mars seldist fjórðungur þeirra Range Rover-bifreiða sem seldust í janúar.
Í mars seldist fjórðungur þeirra Range Rover-bifreiða sem seldust í janúar.

Samdrátt í sölu nýrra bifreiða má vel merkja af sölutölum fyrstu þriggja mánaða ársins frá Bílgreinasambandinu og Umferðarstofu. Egill Jóhannsson, formaður Bílgreinasambandsins, ræddi við Vísi í síðustu viku og sagði umboðin þegar byrjuð að draga úr pöntunum og minnka birgðir.

Sem dæmi má skoða skráningar nýrra jeppabifreiða af gerðinni Toyota Land Cruiser 120. Í janúar eru 159 slíkar bifreiðar nýskráðar, 81 í febrúar og að lokum 56 í mars, um þriðjungur nýskráninga janúarmánaðar. Þegar litið er til annarrar vinsællar tegundar, Range Rover, kemur í ljós að sala nýrra bifreiða af þeirri gerð mánuðina janúar, febrúar og mars á þessu ári var 20, 6 og 5.

„Við höfum fundið fyrir því að það hefur verið mjög rólegt síðustu tvær vikurnar," sagði Andrés Jónsson, upplýsingafulltrúi B&L sem flytur inn Range Rover. „Árið byrjaði mjög vel en svo kom þessi gengisbreyting og fólk er núna að venjast því að bæði nýir bílar hafa hækkað vegna falls krónunnar og um leið hafa notaðir bílar hækkað af því að verð nýrra bíla er notað sem viðmiðun við verðlagningu þeirra," útskýrði Árni.

Hann sagði B&L hafa ráðist í mikla útsölu fyrir hálfum mánuði og hefði verðið þá verið lækkað töluvert meira en gert hefði verið í venjulegu árferði. Þá hefði verið dregið úr pöntunum ýmissa dýrari gerða bifreiða: „Við breyttum pöntunum fyrir mörgum mánuðum þannig að við höfum dregið úr pöntunum á t.d. dýrari gerðunum af Range Rover, áherslurnar í lúxusbílunum hafa breyst og við erum meira að fókusera á dísilvélar og sparneytnari bíla en þessa ofurbíla verður alltaf hægt að sérpanta. Spurnin er meiri núna eftir ódýrari bílum," sagði Andrés.

Hann sagði hækkun evrunnar hafa verið spáð innanhúss hjá B&L þegar fyrir áramót og hefði þá tillit verið tekið til þess í pöntunum. Frekar reglulegar sveiflur væru í bílasölu en auðvitað þyrfti fólk alltaf að kaupa bíla. „Síðasta ár var rosalega gott en þetta ár verður samt aldrei jafnslæmt og 2001 þegar aðeins 6.500 bílar seldust, það er þegar búið að selja hátt í það á þessu ári," sagði Andrés að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×