Innlent

Breytinga á lögum ekki að vænta fyrr en á haustþingi

Fjármálaráðherra segir að óskir vöru- og sendibílstjóra verði hafðar til hliðsjónar við breytingar á lögum en að breytinga sé ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á haustþingi.

Mótmæli vöru- og sendibílstjóra hafa staðið yfir í um tvær vikur. Þeir vilja að olíuverð og kílómetragjald verði lækkað og breytingar á hvíldartíma bílstjóra. Bílstjórarnir funduðu með samgönguráðherra fyrir helgi en fjármálaráðherra hefur ekki fundað með þeim fyrr en í morgun.

Fundurinn stóð yfir í rúma klukkustund. Á meðan á honum stóð vaktaði lögregla ráðuneytið og átti jafnvel von á að vörubílstjórar myndu loka aðgengi að ráðuneytinu á meðan.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði eftir fundinn að hann hefði sagt vörubílstjórum að það væri alveg klárt að eins og staðan væri nú ættu þeir ekki að bíða eftir loforðum frá honum um niðurstöðu í málinu. Það væru vikur eða mánuðir í niðurstöðu í málinu. Þá ættu vörubílstjórar ekki að gera ráð fyrir nýrri löggjöf fyrr en í fyrsta lagi eftir haustþingið.

Hann segir bílstjóra síðan þurfa að gera það upp við sig hvort skynsamlegt sé að halda mótmælum áfram. „Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Ég held að þeir hafi náð því sem hægt er að ná með aðgerðum eins og þessum," sagði fjármálaráðherra eftir fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×