Innlent

Hættir sem formaður BHM eftir óróa á aðalfundi

Halldóra Friðjónsdóttir stígur úr stóli formanns Bandalags háskólamanna eftir að upp úr sauð á aðalfundi bandalagsins fyrir helgi. Ákveðin óánægja hefur verið með framgöngu formannsins, segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður stærsta stéttarfélagsins innan BHM.

Upp úr sauð á fundinum síðdegis á föstudag þegar samþykkja átti fjárhagsáætlun samtakanna og tillögu uppstillingarnefndar um nýja stjórn. Um tíu þúsund manns eru í aðildarfélögum BHM og þeirra stærst er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Fulltrúar stærstu félaganna lögðu til að aðalfundi yrði frestað fram á haust en síðan var samþykkt að fresta honum um einn og hálfan mánuð.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við fréttastofu Stöð 2 í morgun að ákveðin óánægja hefði verið með framgöngu formannsins sem hefði ekki verið opinn fyrir hugmyndum um breytingar.

Hún játti því að félagið hefði viðrað þá hugmynd við nokkra félaga um að gefa kost á sér í formannsstól en enginn hefði verið tilkippilegur. Þá benti hún á að skrifstofa Félags hjúkrunarfræðinga væri stærra apparat en hjá BHM, félagið hefðu hug á að efla hjá sér starfsemina. Um 16 milljónir rynnu frá félaginu til BHM á þessu ári og það fé gæti nýst betur beint fyrir hjúkrunarfræðinga innan félagsins.

Töluverður órói hefur verið innan bandalagsins síðan hjúkrunarfræðingar ræddu á síðasta ári þann möguleika að segja sig úr BHM. Ákveðið var að sitja áfram innan BHM, enda hafa hjúkrunarfræðingar áhyggjur af því að lífeyrisréttindi kynnu í skerðast í kjölfarið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hyggst Halldóra ekki gefa kost á sér áfram og hafa þegar nokkrar ábendingar borist uppstillingarnefnd um nýtt formannsefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×