Innlent

Vörubílstjórar hóta því að lama þjóðfélagið

MYND/Stöð 2

Sturla Jónsson, talsmaður vörubílstjóra sem staðið hafa fyrir mótmælum síðustu daga, segir lítið hafa komið út úr fundi hans og Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Bílstjórarnir hóta enn alvarlegri aðgerðum en þegar hafa litið dagsins ljós. „Í raun og veru kom ekkert út úr þessum fundi. Við fengum bara sömu svör og hjá Geir þegar hann var fjármálaráðherra," segir Sturla.

„Þeir eru að skoða þetta, en maður veltir því fyrir sér hvort það líði ekki bara önnur þrjú ár eins og síðast. Hann gaf samt eitthvað út um að það verði eitthvað gert í málum okkar næsta haust, en við kaupum ekki mjólkina í haust," segir Sturla og bætir því við að það sé „stjórnlaus della" að ætla sér að leysa málin í haust.

Sturla segir að bílstjórarnir hafi rætt málin eftir fundinn og séu sammála um að þeir séu hvergi nærri hættir. „Það er bara spurning hvenær menn taka stóra stoppið." Aðspurður hvað hann á við með „stóra stoppinu" segir Sturla: „Þá lamast þjóðfélagið einfaldlega." Sturla segir menn óhrædda við að taka afleiðingunum af svo víðtækum mótmælum. „Við fáum varla meiri dóm en morðingjar," segir hann.

Hann áréttar þó að það hafi verið „ágætt að tala við Árna," og að hann hafi brýnt fyrir ráðherranum að ríkistjórnin verði að fara að ræða þessi mál af alvöru. „Menn vilja bara geta unnið í friði, þetta er ekki flóknara en það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×