Innlent

Akureyrarbær greiði Svefni og heilsu 218 milljónir fyrir hús og lóð

Akureyrarbæ ber að greiða Svefni og heilsu um 218 milljónir króna fyrir húsnæði og lóðaréttindi vegna framkvæmda við stækkun og endurbætur verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs. Að þessu hefur matsnefnd eignarnámsbóta komist. Fram kemur í tilkynningu frá Akureyrarbæ að Svefn og heilsa hafi krafist rúmlega eins og hálfs milljarðs króna vegna kaupanna.

„Deila Svefns og heilsu og Akureyrarbæjar snýst fyrst og fremst um niðurrif byggingar sem er að fullu í eigu SMI ehf. en er áföst húsnæði Svefns og heilsu. Málið snýst einnig um niðurrif hluta tengibyggingar sem er 15% í eigu Svefns og heilsu og tengdi áður húsnæði verslunarinnar við húsnæði gömlu Sambandsverksmiðjanna sem hafa þegar verið fjarlægðar. Niðurrifið er samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem heimilar stækkun verslanamiðstöðvarinnar. Mikilvægt er að byggingarnar víki til þess að tryggja eðlilegt aðgengi að nýju og endurbættu Glerártorgi. Ekki er hins vegar nauðsynlegt að rífa verslunarhúsnæði Svefns og heilsu og Húsgagnanna heim," segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Þar segir einnig að eigandi Svefns og heilsu hafi ekki orðið við ósk Akureyrarbæjar um umbeðið niðurrif og ekki náðist samkomulag um kaupverð við eigandann. Því var leitað til Matsnefndar eignarnámsbóta um að meta eðlilegt kaupverð eigna Svefns og heilsu.

Í framhaldinu fór eigandinn fram á að bærinn yfirtæki allar eignir hans við Dalsbrautina, þ.e. verslunarhúsnæði, lagerhúsnæði og tengibyggingu auk lóðaréttinda. Akureyrarbær hefur kaupanda að umræddum eignum og verður því ekki fyrir fjárhagslegum útgjöldum vegna þessa úrskurðar.

Akureyrarbær fagnar niðurstöðu nefndarinnar en harmar að ekki skyldi hafa náðst sátt í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×