Innlent

Lögreglunemar æfa viðbrögð við hópslysi

MYND/Hari

Lögregluskóli ríkisins stendur fyrir hópslysaæfingu á Bláfjallavegi við Sandskeið á morgun þar sem rútuslys verður sett á svið.

Auk lögregluskólans koma almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslan, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Rannsóknarnefnd umferðarslysa að æfingunni. Samkvæmt tilkynningu frá Lögregluskólanum lendir hópferðabíll utan vegar eftir að hafa reynt að komast hjá árekstri við fólksbíl. 18-20 manns slasast í hinu sviðsetta slysi og eiga lögreglumenn á vettvangi að kalla á þær bjargir sem þeir þurfa, þar á meðal þyrlu, tækja- og sjúkrabíla og mann frá rannsóknarnefnd umferðarslysa.

Markmið æfingarinnar er að æfa viðbrögð og samvinnu lögreglunema við hópslysi. Nemendur þurfa að bregðast við þeim aðstæðum sem kunna að koma upp á vettvangi slyssins. Mikilvægt er að afgreiða málið sem alvöru verkefni segir í tilkynningunni.

Þetta er í fyrsta skipti sem slík æfing er haldin á vegum Lögregluskólans og segja forsvarsmenn skólans að þetta sé merki um hversu mikill metnaður sé hjá skólanum að halda raunverulegar æfingar til að undirbúa verðandi lögreglumenn undir það sem koma skal.

Lögreglumennirnir verða sendir í slysið klukkan hálfellefu í fyrramálið en alls taka 45 nemendur þátt í æfingunni, ýmist sem lögreglumenn eða slasaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×