Innlent

Vörubílstjórar loka inni bíla ráðherra - segja skotið á einn bíl með loftriffli

Forsætisráðherra sagði fyrir stundu að ekki yrði farið að neinum kröfum vörubílstjóra á meðan þeir héldu uppi ólöglegum mótmælum gegn háum álögum ríkisvaldsins á eldsneyti. Vörubílstjórar segja að skotið hafi verið á einn bíla þeirra með loftriffli.

Forsætisráðhera lét þessi orð falla eftir að í ljós kom að vörubílstjórar voru búnir að loka inni bíla forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem reyndar hafði verið lagt ólöglega fyrir utan Listasafn Reykjavíkur þar sem ráðherranir voru að halda kynningarfund um ímynd Íslands. Vörubílstjórar hafa líka safnast saman við húsakynni fjármálaráðherra í Arnarhvoli.

Vörubílstjórar lokuðu á ráðherra. Mynd/ Vilhelm.

Lögreglumenn hafa farið um svæðið fyrir utan Listasafnið í Tryggvagötu og skrifað sektarmiða á vörubíla og ráðherrabílana. Ljóst er að umferðartafir hljótast af aðgerðum bílstjóranna enda götur þröngar og bílarnir stórir. Ekki liggur fyrir hvort þeir ætla í dag að loka fjölförnum gatnamótum, eins og þeir gerðu í síðustu viku.

Nú rétt fyrir hádegi fullyrtu vörubílstjórar að skotið hafi verið með loftriffli að einum bíla þeirra og brotið ljós. Lögregla er að kalla út sérstaka rannsóknasveit til að rannska málið.

Sturla Jónsson, talsmaður bílstjóranna, segir óljóst hvað hafi gerst. „Menn vita ekki alveg hvað gerðist en þeir halda að það hafi verið skotið á einn bílinn. Ljósið er brotið og það er skemmd inni í ljósinu sem bendir til að skot hafi farið í það," sagði Sturla. Hann sagðist ekki vita til þess að sést hafi til einhvers með byssu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×