Innlent

Geir með leiguvél til Svíþjóðar

Geir H. Haarde ferðast mikið þessa dagana.
Geir H. Haarde ferðast mikið þessa dagana.

Geir H. Haarde forsætisráðherra heldur til bæjarins Riksgränsen í Svíþjóð seinni partinn á morgun í leiguvél frá flugfélaginu Erni. Tilgangurinn er að sækja fund norrænu forsætisráðherranna og er kostnaður 800 til 900 þúsund krónum meiri en ef um áætlunarflug væri að ræða eftir því sem fram kemur í tilkynningu á vef Forsætisráðuneytisins.

Með Geir í för eru Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, sem fer sem staðgengill Össurar Skarphéðinssonar, samstarfsráðherra Norðurlandanna sem og þrír starfsmenn. Auk þess verða Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, og Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, með í för en þeir eru sérstakir gestir ráðherranefndarinnar.

Í tilkynningunni kemur fram að með þessu fyrirkomulagi muni sparast einn til tveir vinnudagar en gert er ráð fyrir heimkomu að kvöldi 9. apríl.

Þetta er í annað sinn á rúmri viku sem Geir notast við leiguvél en hann fór ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra á einkaflugvél á ráðherrafund NATÓ í Búkarest í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×