Erlent

Skoska lögreglan fann aðra hönd

Lögreglumenn á hestum á strönd á Skotlandi.
Lögreglumenn á hestum á strönd á Skotlandi. MYND/AFP

Lögregla sem rannsakar Arbroath strönd í Skotlandi þar sem höfuð konu og hönd fundust í gær, hefur fundið aðra hönd. Tvær ungar systur fundu höfuðið í plastpoka í gær þar sem þær voru að leik í gærmorgun.

Meiriháttar lögreglurannsókn var þá sett af stað og sérstakt teymi alvarlegra glæpamála á vegum innanríkisráðuneytisins kallað til. Nú er verið að reyna að komast að því hver konan var, meðal annars með því að fara í gegnum allar tilkynningar um konur sem er saknað.

Graham McMillan yfirrannsóknarlögreglumaður sem leiðir rannsóknina sagði Sky fréttastofunni að yfirvöldum væri mikið í mun að finna út hver konan væri. Líkamspartarnir hefðu verið fjarlægðir af ströndinni og krufnin yrði framkvæmd í dag með frekari réttar- og meinafræðirannsóknum. Hann telur þó að rannsóknin sé á frumstigi og það muni taka nokkra daga þar til niðurstöður varpi frekara ljósi á málið.

McMillan sagði að vegna mikilla rigninga á svæðinu væri erfitt að segja til um hvort eða hversu lengi höfuðið hefði verið í sjónum.

Hluta strandarinnar, sem er vinsæll útivistastaður fyrir hundaeigendur, hefur verið lokað.

Íbúar bæjarins Arbroath í Angus eru miður sín vegna fundarins. „Þetta er eitthvað sem maður heyrir um í stórborgum. Ég bjóst aldrei við að svona myndi gerast hér," sagði Patricia Miller íbúi bæjarins við Sky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×