Erlent

Hundruð farþega strandaglópar á Heathrow

Útlit er fyrir að breska flugfélagið British Airways þurfi að aflýsa nærri hundrað flugferðum frá nýrri flugstöð Heathrow-flugvallar í Lundúnum um helgina vegna vandræða með innritun farþega og skráningu farangurs.

Um hundrað flugferðum var aflýst í gær og í fyrradag en nýja flugstöðin - sú fimmta á Heathrow - var tekin í notkun á fimmtudaginn. Fyrsta daginn hrundi innritunarkerfið og síðan þá hafa mörg hundruð farþegar verið strandaglópar á vellinum.

Með tilkomu nýju flugstöðvarinnar átti að losa um hinar flugstöðvarnar fjórar og draga úr alræmdri örtröð við innritanir, vegabréfaeftirlit og öryggiseftirlit. British Airways er eina flugfélagið sem notar fimmtu flugstöðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×