Erlent

ESB bannar lífshættulegan mozzarella-ost

Evrópusambandið hefur skipað Ítölum að koma með öllum ráðum í veg fyrir að mozzarella-ostur, sem inniheldur þrávirka eiturefnið díoxín, komist í hillur verslana þar í landi. Hefur sambandið lýst því yfir að gangi þetta ekki eftir geti það orsakað bann við mozzarella í öllum löndum þess en eitraði osturinn kemur frá Napólí á Ítalíu. Nær bannið þó til alls mozzarella osts frá Campania-héraði þar sem mikið magn hans er framleitt. Talsmenn heilbrigðisnefndar ESB hafa látið þau orð falla að Ítalir hafi hvorki staðið sig í stykkinu við að gæta hreinlætis við framleiðsluna né fylgst nægilega með að skemmdur ostur komist ekki í hillur verslana.

Franski landbúnaðarráðherrann bannaði í dag sölu á mozzarella-osti frá Campania-héraði til að gæta varúðar. Díoxín er eitt af eitruðustu efnum sem finnast í umhverfinu en til eru 75 miseitraðar gerðir þess. Tilurð þess má rekja til ýmissa efnaferla þar sem klór kemur við sögu, s.s. sorp- eða spilliefnabrennslu. Díoxín getur valdið húðútbrotum, krabbameini, lækkun á testósteróni og lifrarskemmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×