Erlent

Þinghúsi í Haag lokað í varúðarskyni vegna Kóranmyndar

Geert Wilders hefur vakið mikið umtal í Hollandi fyrir mynd sína um Kóraninn sem hann lýsir sem fasistariti.
Geert Wilders hefur vakið mikið umtal í Hollandi fyrir mynd sína um Kóraninn sem hann lýsir sem fasistariti. MYND/AP

Þinghúsinu í Haag í Hollandi hefur verið lokað í varúðarskyni eftir að umdeild mynd eftir hollenska stjórnmálamanninn Geert Wilders um Kóraninn var sett á Netið í gær.

Þá funduðu innflytjendaráðherra og dómsmálaráðherra landsins með fulltrúum múslíma í landinu vegna málsins í morgun. Eins og fram hefur komið í fréttum óttast hollensk stjórnvöld að myndin veki reiði meðal múslíma bæði í Hollandi og víðar um heiminn enda er ráðist harkalega gegn Kóraninum í myndinni. Allt hefur þó verið með kyrrum kjörum í landinu í dag.

Myndin sem um ræðir nefnist Fitna og hefur meðal annars að geyma myndir af hryðjverkaárásunum í New York 11. september 2001 og á Spáni í mars 2003 og þær settar í samhengi við texta í Kóraninum. Þá er varað við vaxandi fjölda múslíma í Hollandi og Evrópu alllri.

Hollensk stjórnvöld hafa gagnrýnt myndina og segja hana ekki endurspegla viðhorf þeirra. Þá stendur yfir rannsókn á því hvort Wilders, sem er situr á hollenska þinginu, hafi brotið gegn lögum með birtingu myndarinnar.

Ella Vogelaar, innflytjendaráðherra Hollands, sagði eftir fund með fulltrúum múslíma í landinu að þeir myndu ekki falla í gildru Wilders en hann reyndi að auka á ótta og óöryggi í landinu. Þá sagði hún Samtök múslíma hafa lýst því yfir að trúrarleiðtogar múslíma í Hollandi myndu hvetja söfnuði sína til að halda ró sinni vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×