Erlent

Munkarnir höfðu aðra sögu að segja

Tilraun kínverskra stjórnvalda til að sýna erlendum fréttamönnum fram á að sátt ríkti nú í Tíbet fór illilega út um þúfur í morgun.

Völdum hópi erlendra fréttamanna var boðið að heimsækja Lhasa, höfuðborg Tíbets. Þegar umsjónarmaður Jokhang-klaustursins var að ræða við þá birtust skyndilega um þrjátíu munkar sem höfðu allt aðra sögu að segja en umsjónarmaðurinn. Þeir sögðust hafa verið lokaðir inni í klaustrinu síðan 10. mars þegar mótmæli brutust út í Tíbet.

Munkarnir voru óhræddir við að tala við fréttamennina, meðal annars sjónvarpsfréttamenn frá Tævan og Hong Kong. Einn munkurinn komst í mikla geðshræringu og aðrir sögðu að yfirvöld sökuðu þá um að hafa ætlað að skemma eigur fólks, ræna og brenna. Það væri ósatt; þeir vildu bara frelsi.

Eftir um fimmtán mínútur voru komu óeinkennisklæddir lögreglumenn og fóru með munkana burt og fréttamennirnir voru teknir á næsta áfangastað.

Í miðborg Lhasa má enn sjá ummerki um átök undanfarinna vikna, brunnin hús og rimla fyrir gluggum verslana. Vestræn ríki hafa hvatt stjórnvöld í Kína til að ræða við Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta, en Kínverjar standa fast á því að hann hafi staðið fyrir uppþotunum undanfarið þó að sjálfur hafi hann fordæmt allt ofbeldi - bæði Tíbeta og Kínverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×