Erlent

Barni bjargað úr brunni eftir 27 tíma

Indverjar sækja víða vatn í mismunandi útbúna brunna.
Indverjar sækja víða vatn í mismunandi útbúna brunna. MYND/Getty Images

Tveggja ára gamalli stúlku var bjargað í dag úr brunni á Indlandi eftir að vera föst þar í 27 klukkustundir. Vandana var að leika sér þegar hún féll tæpa 14 metra niður óvarinn brunninn skammt frá höfuðborginni New Delhi. Herinn var kallaður til aðstoðar og björgunarmenn grófu göng niður við hlið brunnsins þar sem Vandana sat föst.

Samkvæmt heimildum CNN bað stúlkan reglulega um ávexti og sælgæti sem var sent til hennar með kaðli. Súrefni var einnig blásið í brunninn í gegnum slöngur til að varna köfnun.

Þetta er í sjötta sinn sem barn dettur ofan í holu eða opinn brunn á Indlandi á síðustu tveimur árum. Þann 30. janúar síðastliðinn tókst björgunarmönnum að ná sex ára gömlum dreng úr 12 metra djúpum brunni í Karnataka héraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×