Enski boltinn

Benitez vill halda Hyypia og Crouch

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Crouch í baráttu við Ricardo Carvalho, leikmann Chelsea.
Crouch í baráttu við Ricardo Carvalho, leikmann Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Rafa Benitez segist vongóður um að þeir Sami Hyypia og Peter Crouch framlengi samninga sína við Liverpool.

Hann segist viss um að Crouch geri langtímasamning við Liverpool og að Hyypia framlengi núverandi samning sinn um eitt ár.

„Ég hef rætt við þá báða oftar en einu sinni. Það er aldrei að vita en þetta mál gæti klárast fljótlega," sagði Benitez. „Rick Parry (framkvæmdarstjóri Liverpool) sagði mér að umboðsmaður Crouch hefði viljað ræða við hann um nýjan samning. Það var fyrir meira en mánuði síðan."

Crouch hefur oft verið sagður ósáttur við að fá ekki að spila reglulega og hefur hann verið orðaður við bæði Manchester City og Portsmouth.

„Ég talaði við Peter og skýrði fyrir honum mínar hugmyndir. Hann veit vel að bestu félögin skipta stundum um leikmenn. En hann er hamingjusamur og Rick er að ræða við umboðsmanninn hans."

Hyypia hefur spilað óvenjulega mikið á tímabilinu vegna meiðsla varnarmanna liðsins. Hann verður 35 ára gamall síðar á árinu og vill Benitez halda honum í eitt ár í viðbót.

„Þetta snýst ekki bara um reynslu hans heldur líka að hann er góður leikmaður. Hann getur miðlað af reynslu sinni til yngri leikmanna liðsins en líka keppt við þá um stöðu í byrjunarliðinu."

Ef Hyypia verður hjá liðinu á næsta ári verða liðin tíu ár síðan hann lék fyrst fyrir Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×