Enski boltinn

Ramos er ekki hættur

Ramos fékk gott kampavínsbað í gær
Ramos fékk gott kampavínsbað í gær Nordic Photos / Getty Images

Juande Ramos, stjóri Tottenham, var ekki lengi að ná í sinn fyrsta bikar með liði Tottenham eftir að hann tók við liðinu. Tottenham vann í gær sinn fyrsta bikar á öldinni undir stjórn Spánverjann, sem hefur reynst gríðarlega sigursæll í bikarkeppnum undanfarin ár.

Ramos var að vonum ánægður í gær þegar hans menn lyftu bikarnum eftir sigur á Chelsea, en hann setur markið hærra fyrir ungt lið Tottenham.

"Þetta var frábær reynsla og við vonumst til að endurtaka hana. Þetta var ekki síst gaman fyrir leikmennina og stuðningsmennina, því biðin eftir titli hefur virkað löng í augum stuðningsmanna liðs eins og Tottenham. Kannski var þessi sigur líka dálítið sætur af því við vorum litla liðið í úrslitaleiknum," sagði Ramos.

Tottenham liðið hefur bætt sig gríðarlega síðan spænski stjórinn tók við, en hann var fljótur að setja mark sitt bæði á spilamennskuna og æfingar. Þá hefur andinn í liðinu tekið stórum framförum, enda hefur Ramos þegar náð að leggja lið eins og Chelsea og Arsenal að velli á stuttum tíma sínum með liðið - nokkuð sem forverum hans reyndist óyfirstíganlegur þröskuldur.

"Strákarnir eru að bæta sig dag frá degi þegar kemur að sjálfstrausti og öryggi og þessi sigur staðferstir það. Þeir hafa bætt sig í leiknum gegn toppliðunum og hafa sýnt einbeitingu til að kljást við þá bestu," sagði Ramos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×