Enski boltinn

Viðbrögð lækna forðuðu Eduardo frá aflimun

AFP

Skjót viðbrögð sjúkraliða á laugardaginn höfðu mikið að segja þegar framherjinn Eduardo fótbrotnaði mjög illa í leik með Arsenal. Ef ekki hefði komið til skjótra handtaka sjúkraliða, hefði jafnvel þurft að koma til aflimunar. Þetta segir virtur læknir í samtali við BBC í dag.

"Það er einfaldlega hægt að missa fótinn við þessar aðstæður. Þegar fóturinn fer svona úr lið getur það skemmt allt æðakerfið og það er mjög, mjög alvarlegt. Það verður að koma fætinum í lið strax og fara beint í uppskurð. Það er hægt að hugsa sér versta mögulegu tognun á ökkla og margfalda hana með tíu- þá ertu að verða kominn út í það sem Eduardo upplifði," sagði læknirinn Tim Allardyce.

Hann reiknar með því að Eduardo þurfi lágmark 9 mánuði til að jafna sig af meiðslum sínum. "Venjulega yrði maður frá í um hálft ár vegna svona meiðsla, en hann er íþrottamaður þannig að hann verður líklega eina níu mánuði að komast aftur í form. Hann á gríðarlega vinnu fyrir höndum og ég er ekki viss um að hann nái fyrri styrk. Þetta verður mikið sálfræðistríð fyrir hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×