Enski boltinn

Byrjunin á einhverju sérstöku

Elvar Geir Magnússon skrifar
Juande Ramos fékk kampavínssturtu frá leikmönnum sínum eftir leik.
Juande Ramos fékk kampavínssturtu frá leikmönnum sínum eftir leik.

Robbie Keane, sóknarmaður Tottenham, trúir því að sigur liðsins í deildabikarnum í dag verði byrjunin á einhverju sérstöku hjá félaginu. Tottenham vann Chelsea í úrslitaleik og vann sinn fyrsta titil í níu ár.

Juande Ramos, stjóri Tottenham, hefur aðeins verið við stjórnvölinn á White Hart Lane í fimm mánuði. Það er því ekki hægt að segja annað en að framtíðin sé björt.

„Vonandi náum við að fylgja þessu eftir og þetta er byrjunin á einhverju sérstöku. Þetta var mikil prófraun fyrir okkur og draumur hefur ræst. Mig hefur dreymt þetta augnablik frá því ég var krakki og ég er nánast orðlaus," sagði Keane.

Jonathan Woodgate skoraði sigurmarkið í leiknum í framlengingu. Þetta var aðeins hans fjórði leikur fyrir Tottenham. „Ég fer sjaldan fram í hornum en ég ákvað að skella mér og hafði heppnina með mér," sagði Woodgate.

„Við vorum betri í þessum leik og vonandi getum við fylgt þessu eftir á næsta tímabili. Chelsea er eitt sterkasta lið Evrópu en við unnum þá verðskuldað."

Ledley King er eini leikmaður Tottenham í dag sem lék með liðinu í síðasta bikarúrslitaleik, tímabilið 2002. „Þetta hefur verið löng bið. Leikmenn lögðu sig alla fram og sýndu hversu öflugt lið við erum. Það er erfitt að lenda undir en okkur tókst að snúa dæminu við," sagði King.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×