Enski boltinn

Tottenham vann deildabikarinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag.

Tottenham vann úrslitaleik enska deildabikarsins í dag. Liðið mætti Chelsea í Lundúnaslag á Wembley og vann 2-1 sigur í stórskemmtilegum úrslitaleik.

Chelsea náði 1-0 forystu á 39. mínútu með marki Didier Drogba beint úr aukaspyrnu. Paul Robinson, markvörður Tottenham, var fáránlega staðsettur í markinu og var frosinn þegar skot Drogba hafnaði í netinu.

Á 70. mínútu jafnaði Dimitar Berbatov úr vítaspyrnu sem var réttilega dæmd eftir að Wayne Bridge handlék knöttinn innan teigs. Berbatov var svellkaldur á punktinum og skoraði af öryggi.

Staðan var jöfn 1-1 eftir venjulegan leiktíma og því framlengt. Í framlengingunni skoraði Jonathan Woodgate sigurmarkið eftir hrikalegan varnarleik Chelsea. Petr Cech kýldi boltann í Woodgate og inn.

Mikil spenna var undir lokin og fékk Chelsea fín færi til að jafna metin. Robinson varði m.a. meistaralega eftir skot frá Saloman Kalou.

Þetta er í fjórða sinn sem Tottenham vinnur þennan bikar en Juande Ramos, stjóri liðsins, er þegar að komast í guðatölu hjá stuðningsmönnum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×