Enski boltinn

Chelsea sigurstranglegra

Elvar Geir Magnússon skrifar
Juande Ramos.
Juande Ramos.

Juande Ramos, knattspyrnustjóri Tottenham, er bjartsýnn fyrir viðureignina gegn Chelsea í úrslitum enska deildabikarsins. Leikurinn hefst klukkan 15:00 í dag og verður í beinni útsendingu á Sýn.

„Chelsea er hörkulið og fer í þennan úrslitaleik sem sigurstranglegra liðið þar sem þeir eru ofar á töflunni en við. En hver leikur er sérstakur og ekki hægt að bóka neitt fyrirfram," sagði Ramos.

„Það væri frábært að fá bikar í hús, það myndi færa félagi sem þarf á bikar að halda mikla gleði," sagði Ramos sem fékk hrós frá Sir Alex Ferguson fyrir skömmu. Margir álíta að Ramos sé einn allra færasti stjóri enska boltans.

„Það er eitthvað sem ég á ekki að dæma um. Það er góð tilfinning að fólk sé ánægt með það starf sem við höfum unnið og þeim framförum sem liðið hefur tekið."

Ledley King, fyrirliði Tottenham, verður líklega með í dag en hann hefur verið frá í mánuð eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×