Enski boltinn

Capello hefur áhyggjur af markinu

NordcPhotos/GettyImages

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, viðurkennir að hann hafi áhyggjur af markmannsstöðunni í landsliðinu í framtíðinni.

Capello setti David James í markið í sínum fyrsta landsleik við stjórnvölinn hjá enska landsliðinu og stóð hann sig bærilega - þó ekki væri hann fullkominn.

James stóð í enska markinu í upphafi stjórnartíðar Sven-Göran Eriksson en missti svo sæti sitt í hendur Paul Robinson. Sá er nú kominn út í kuldann og Capello hefur áhyggjur.

"Aðeins 38% af leikmönnunum sem spila á Englandi eru heimamenn svo það er ekki úr allt of miklu að velja. Ég þurfti að fá 37 ára gömlum markverði það hlutverk að standa í markinu, en ég er búinn að koma auga á mann í 21 árs landsliðinu sem er áhugaverður kostur," sagði Capello í viðtali við ítalska útvarpsstöð.

Þar á hann við hinn unga Joe Hart hjá Manchester City, sem leikur með yngra liði Englendinga. Annars sagðist Capello aðspurður vera nokkuð sáttur við dvöl sína á Englandi - nema kannski þegar kemur að atgangi fjölmiðla.

"Knattspyrnumenningin á Englandi er frábær. Hér eru allir leikvangar fullir af ástríðufullum áhorfendum sem þó fara ekki yfir strikið. Dómararnir leyfa leiknum að fljóta miklu meira en þeir gera á Ítalíu þar sem alltaf er verið að brjóta leikinn upp. En pressan frá fjölmiðlum hérna er gríðarlega þung - sérstaklega þegar kemur að landsliðsþjálfaranum," sagði Capello.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×