Enski boltinn

Eggert minntist fyrstur á útrásina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham.
Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Enskir fjölmiðlar halda því fram að umræðan um mögulega útrás ensku úrvalsdeildarinnar hafi fyrst vaknað eftir að Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham, vakti máls á málinu.

Breska blaðið Telegraph segir að Eggert hafi stungið upp á því að leikur úr ensku úrvalsdeildinni ætti að fara fram erlendis, þá helst í Bandaríkjunum, eftir að leikur úr NFL-deildinni fór fram á Wembley-leikvanganum í London.

Samtök stuðningsmanna í Englandi sendu öllum stjórnarformönnum ensku úrvalsdeildarfélaganna bréf í kjölfarið þar sem beðið var um þeirra sjónarmið á mögulegri útrás ensku úrvalsdeildarinnar.

Aðeins fulltrúar þriggja félaga svöruðu bréfinu en þeir voru allir mótfallnir hugmyndinni.

Síðan þá hefur hugmyndin ágerst en fyrir skömmu samþykktu fulltrúar allra ensku úrvalsdeildarfélagana að skoða þann möguleika að bæta við heilli umferð við deildakeppnina og að leikir í henni færu fram víðs vegar um heiminn.

Viðbrögð við þessu hafa verið blendin en Sepp Blatter, forseti FIFA, þvertók fyrir þetta rétt eins og Michel Platini, forseti UEFA. Þá hafa forystumenn í knattspyrnunni í Asíu og Ameríku einnig tekið illa í hugmyndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×