Enski boltinn

Hann sagði að við værum feitir

Juande Ramos er harður í horn að taka
Juande Ramos er harður í horn að taka Nordic Photos / Getty Images

Tékkneski táningurinn Tomas Pekhart hefur nú gefið skýringu á því af hverju markvörðurinn Paul Robinson er kominn út í kuldann hjá Juande Ramos, stjóra Tottenham.

Pekhart veitti fjölmiðlum í heimalandi sínu viðtal í tilefni af leik Tottenham gegn gamla liðinu hans Slavia Prag í Evrópukeppninni annað kvöld.

Þar segir hann að Paul Robinson hafi endanlega komið sér í ónáð hjá Ramos eftir að hann neitaði að hita upp fyrir undanúrslitaleikinn gegn Arsenal þann 9. janúar sl. - en þá var Robinson fyrst tilkynnt að hann ætti að sitja á bekknum.

"Robinson lítur út fyrir að vera mjög reiður. Hann neitaði að hita upp fyrir leikinn gegn Arsenal og það gerði Ramos enn reiðari," sagði Pekhart.

"Ramos er mjög strangur og leggur mikið upp úr aga. Enginn hefur þorað að ögra honum enda talar hann hvort sem er bara spænsku. Það er Gus Poyet sem talar enskuna," sagði framherjinn ungi sem slegið hefur í gegn með yngri- og varaliðum Tottenham.

"Radek (Cerny) er mjög ánægður að hafa loksins fengið tækifæri í markinu en hann var búinn að vera frábær á æfingum," sagði Pekhart, en leikmenn Tottenham þurftu að smakka á því þegar Ramos tók við af Martin Jol.

"Ramos kom inn í búningsklefann og sagði okkur að við værum feitir. Hann vildi um fram allt bæta líkamlegt ástand leikmanna og lét okkur æfa tvisvar á dag. Við vorum vigtaðir eftir hverja æfingu og mataræðið var tekið í gegn. Nú drekkum við bara vatn með sítrónu," sagði Tékkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×