Enski boltinn

Capello: Ég er ekki Messías

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello fylgist með sínum mönnum á æfingu í vikunni.
Fabio Capello fylgist með sínum mönnum á æfingu í vikunni. Nordic Photos / Getty Images

Fabio Capello varar við of mikilli bjartsýni í garð enska landsliðsins sem leikur sinn fyrsta leik undir hans stjórn í dag.

„Ég er ekki Messías," sagði Capello. „Ég er bara maður sem reynir að ná árangri með mikilli vinnu. Ég mun reyna að fá leikmenn til að hugsa eins og sigurvegarar og hafa trú á eigin getu."

„Ég get ekki framkallað kraftaverk á þremur dögum. Það mikilvægasta er að búa til góðan hóp."

Capello hefur verið mjög sigursæll á sínum ferli og unnið meistaratitla með öllum þeim fjórum liðum sem hann hefur stýrt - AC Milan, Real Madrid, Roma og Juventus.

En hann benti á að hann hefði ekki úr mörgum leikmönnum að velja á Englandi.

„Það er mjög athyglisvert að aðeins 38% leikmanna á Englandi eru enskir. Hlutfall innfæddra leikmanna er mun hærra á Spáni til að mynda. Þetta er eitthvað sem þarf að minna fólk á."

Eins og Vísir greindi frá í gær ríkja strangar agareglur hjá Capello og býst hann ekki við neinum vandræðum hvað þær varðar.

„Auðvitað kemur það fyrir að fólk gerir mistök en ef þú vilt vera hluti af hópnum verður þú að fylgja reglum hópsins. Á fimmtudaginn geta leikmenn spilað eins mikið golf og þeim lystir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×